Búið að draga í Mjólkurbikarnum - Afríka bætist í riðilinn

Búið að draga í Mjólkurbikarnum - Afríka bætist í riðilinn

Búið er að draga í fyrstu tvær umferðir Mjólkurbikars karla. Í fyrstu umferð mæta Uppsveitir Knattspyrnufélaginu Kára í Akraneshöllinni 4. apríl nk. Sigurvegari þeirrar viðureignar mætir svo annaðhvort Selfossi eða Stokkseyri í 2. umferð. Kári spilar í 3. deild karla og hafa liðin aldrei mæst áður. Nái Uppsveitir í óvænt úrslit gæti sögulegur suðurlandsslagur beðið í næstu umferð.  

Árangur í Mjólkurbikarnum var ljósi punkturinn á síðastliðnu tímabili hjá Uppsveitum en liðið komst eftirminnilega alla leið í 3. umferð eða 32-liða úrslit eftir 7-0 sigur á Hamri í fyrstu umferð og 4-3 sigur á KÁ þar sem Helgi Valdimar leysti markmannsstöðuna lungann úr leiknum og tókst honum það hreint ágætlega. Sannaði hann þar með að hann getur raunverulega leyst allar stöður á vellinum!

Í 32-liða úrslitum fékk liðið svo útileik gegn Bestudeildarliði KA og úr varð mikið fjölmiðlafár þegar Gísli Þór, formaður knattspyrnudeildar sagði allt stefna í „50-50 leik“ og að Uppsveitir stefni að sjálfsögðu á sigur. Gísli á RÚV.

Viðureignin vakti enn meiri athygli þegar í ljós kom að liðið hafi fengið félagaskipti fyrir Hjört Geir Heimisson. „„Liam Killa (þjálfari Uppsveita) hringdi í mig í gær, ég spilaði með honum í Magna, hann sagði að markmaðurinn þeirra væri á Tenerife og hann vantaði markmann í leikinn. Ég sagði við hann að ég gæti alveg aðstoðað hann við þetta en að ég hafði síðast spilað 2018 og gæti ekki lofað því að ég myndi verja eitt skot," sagði Hjörtur í viðtali við Fótbolta.net. Þegar kom svo að leiknum sjálfum uppskar eitt besta lið landsins nokkuð þægilegan 5-0 en lið Uppsveita gat samt sem áður farið heim með höfuð hátt eftir hetjulega baráttu. 

 

Afríka bætist við riðilinn

Aðeins 2 lið voru skráð í utandeildina í ár og ákvað mótstjórn því að hún yrði ekki spiluð í ár. Þess í stað bætast liðin tvö í sitthvoran riðilinn í 5.deild. Þorlákur fer í A-riðil og Afríka í B-riðil, okkar riðil. Afríka mætir á Probygg-völlinn á Flúðum 9. júní og við heimsækjum Afríku síðan 14. júlí á Oneplus-vellinum Álftanesi. 

Afríka heimsótti Flúðavöll sumarið 2020 í leik sem endaði 1-0 fyrir Uppsveitum. Markið skoraði Guðjón Örn Sigurðsson með skalla á 55' mínútu leiksins. Leikskýrsla.

Back to blog