Uppsveitir 8-1 Reynir H
Eftir magrar vikur hjá liðinu og 3 tapleiki í röð var komið að því að taka á móti Reyni Hellisandi á Flúðum í næstsíðasta heimaleik sumarsins. Tap í leiknum hefði þýtt að liðið hefði sogast í fallbaráttu í blálok tímabilsins. Í stuttu máli tók liðið það ekki í mál og skilaði afbragðsframmistöðu. 8 mörk í hús og sigur að stærð sem ekki hefur sést lengi á Probygg- vellinum.
Smá stress var yfir velli í upphafi leiks en Gunnar Bjarki sem átti að byrja inná lenti í óhappi á leiðinni á Flúði og var ekki mættur þegar byrja átti leik. Fékk Tindur þá Gísla til að reima á sig skóna og byrja í miðverði þar til Gunnar kæmi. Skilaði Gísli góðu verki og var staðan markalaus þegar Gunnar kom inn á 27. Mínútu. Alltaf hægt að stóla á GB.
George braut ísinn með góðu marki á 32' mínútu og komu á 6 mínútna kafla mörk frá Danna Ben og Deivy og staðan orðin 3-0 fyrir okkar mönnum. Öflug byrjun og fyrsta mark Deividas fyrir klúbbinn!
Á 40. Mínútu sofnuðum við á verðinum. Fyrirgjöf sem mistókst að hreinsa endaði sem mark fyrir gestina og þeir komnir aftur í leikinn. Margir hefðu orðið skelkaðir við þetta en okkar menn gáfu bara í og mörk frá Ragnari Inga og Samu gerðu stöðuna að 5-1 þegar flautað var til hálfleiks!
Seinni hálfleikur fór rólega af stað. Við vorum mikið með boltann og Reynismenn vörðust þétt. Danni Ben náði að skora sitt annað mark í leiknum á 67' mínútu.
Á 72' mínútu kom Björn Mikael, þekktur sem markvörður, inná og í fremstu línu. Hann er að jafna sig á puttabroti og er á meðan að reyna fyrir sér sem útileikmaður og þetta hans frumraun. Maðurinn ætlaði sko að sanna sig og gerði það heldur betur. Skorar með sinni fyrstu snertingu og skorar svo annað mark í lok leiks (93'). Ótrúlegur.
Stórsigur staðreynd og kröftugur vindur í seglin á endasprettinum. Eftir eru 2 leikir, útileikur á Ísafirði og síðan heimaleikur gegn nágrönnum okkar í KFR.
ÁFRAM ÍBU!