Tindur nýr þjálfari meistaraflokks!

Tindur nýr þjálfari meistaraflokks!

Meistaraflokksráð Uppsveita hefur samið við Tind Örvar Örvarsson um að stýra liðinu í sumar. Tindur er 23 ára gamall en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann þó nokkra reynslu í þjálfun og þekkir vel til neðri-deildarboltans á Íslandi. Tindur er einn stofnenda FC Árbæjar og og stýrði hann því liði upp um deild í fyrstu tilraun tímabilið 2022 og gerði liðið svo gott mót ári seinna, 3 stigum frá því að fara aftur upp! Tindur og félagar í Árbæ fóru illa með lið Uppsveita í 8- liða úrslitum 4. deildar 2022 og unnu tveggja leikja rimmuna 8-2 og spilaði ítarleg leikgreining Tinds á liði okkar stóran þátt í því að leikar fóru svo. 

Tindur hallast að jákvæðum sóknarbolta en er mikill greinandi og tekur gjarnan ákvarðanir útfrá tölfræði og eiginleikum andstæðinga. Hreinræktaður nútímaþjálfari. 

Honum til aðstoðar verður Aron Þormar Lárusson. Hann verður spilandi aðstoðarþjálfari og er spenntur fyrir nýju hlutverki en þetta er hans frumraun í þjálfun. Aron er okkur kunnugur en hann er uppalinn í Grímsnesi og gekk í kerhólsskóla á Borg. Aron spilaði upp yngri flokka á Selfossi og hefur af og til spilað æfingaleiki með Uppsveitum þegar til hans er kallað. 

Þess má til gamans geta að báðir eru Tindur og Aron með betri spilurum landsins í Fifa tölvuleiknum vinsæla (nú EAFC), og hafa þeir báðir verið í Íslenska landsliðinu í eFótbolta frá 2020. 

 

Þjálfarateymið hefur nú þegar stýrt nokkrum æfingum og eru þeir bjartsýnir fyrir sumrinu. Spennan magnast með hverjum deginum en Uppsveitir hefja leik í lengjubikarnum í Nettóhöllinni Reykjanesbæ í leik gegn Höfnum laugardaginn 24. febrúar kl 19. 

 

#forzaÍBU

 

 

Back to blog