Nýir leikmenn!

Nýir leikmenn!

5 kátir kappar skrifuðu undir félagaskipti til ÍBU í liðinni viku. Allir hafa þeir æft með liðinu undanfarið og eru þvílíkt spenntir fyrir sumrinu. 

Sindri Þór Arnarsson

Sindri er framsækinn leikmaður fæddur 2004. Sindri er uppalinn hjá UMF Selfossi en á meistaraflokksleiki með Stokkseyri, Árborg, og Uppsveitum en hann spilaði með okkur í fyrravor en ákvað svo að klára síðasta árið sitt í 2.flokk á Selfossi. Nú er hann útskrifaður þaðan og mættur í sveitasæluna á Probygg-völlinn. 

Birgir Smári Bergsson

Birgir er nautsterkur varnarmaður úr Hveragerði fæddur 2004. Birgir spilaði 8 leiki með uppeldisfélaginu Hamri í fyrra en var það hans fyrsta tímabil í meistaraflokki. Birgir þekkir vel til Uppsveitanna en hann stundaði nám í Menntaskólanum á Laugarvatni og unni sér vel við þar. 

Ragnar Ingi Þorsteinsson

Ragnar Ingi er annar Hvergerðingur sem heldur upp til sveita. Ragnar er fæddur 2004 (gott ár) og spilaði með Hamri í fyrra. Ragnar er „nútímabakvörður“ með eitraða löpp og djúpan leikskilning. Ragnar er einnig afburðar yngri flokka þjálfari en hann hefur verið að þjálfa nokkra flokka í heimabænum. Ragnar sótti nám í Menntaskólanum á Laugarvatni og kynntist uppsveitalífinu þar. 

Óttar Haraldsson 

Óttar er annar fyrrum ML-ingur uppalinn í Rangárþingi-ytra og fæddur 1999. Ekki er Óttar aðeins seigur miðvörður heldur er hann snillingur á gítar og fleiri hljóðfæri en hann spilar með hljómsveitinni sunnan-6 og hefur margoft troðið upp í félagsheimilum Uppsveita. Gríðarlegur liðsstyrkur innan og ekki síst utanvallar!

Sindri Elíasson

Sindri er Selfyssingur fæddur 2003. Hann er fjölhæfur leikmaður og afbragðsgóður smiður en hann nemur þá iðn um þessar mundir. Sindri er spenntur að spila með átrúnaðargoði sínu í honum Pétri Geir en það hefur verið draumur hans í langan tíma. 

 

Það verður spennandi að fylgjast með þessum leikmönnum í sumar og eru þeir góð styrking á efnilegum leikmannahóp. Það er von á fleiri nýjum nöfnum, bæði leikmönnum og ÞJÁLFARA! Þetta verður allt kynnt í vikunni. STAY TUNED!

 

#forzaÍBU

 

 

Back to blog