Nýtt tímabil nálgast!

Nýtt tímabil nálgast!

ÍBU óskar öllum stuðningsmönnum gleðilegs nýárs og þakkar stuðninginn á liðnu ári. 

Nú eru hjólin hjá félaginu farin að snúast á ný eftir vetrarfrí og er margt í vændum á nýju ári. Félagið verður sem áður með sumaræfingar fyrir iðkendur á aldrinum 5-15 og verður farið á ýmis sumarmót með mannskapinn ásamt því að tefla fram liðum á Íslandsmóti í 5. og 4. flokk í 8-manna bolta. Einnig er von á nokkrum helgaræfingum og vetrarmótum og fá iðkendur veður af því öllu gegnum Sportabler. 

Meistaraflokkur karla verður á sínum stað en tekur talsverðum breytingum frá síðasta tímabili. Eftir slakt gengi síðasta sumar féll liðið úr 4.deild og mun spila í 5.deild í ár. Sú deild verður spiluð í tveimur 8-liða riðlum og fá efstu 2 lið hvors riðils sæti í úrslitakeppni sem ákvarðar hvaða 2 lið fari upp um deild að ári. Sem nýfallið lið er markmið okkar eðlilega að reyna að komast í þessa úrslitakeppni og er undirbúningur fyrir það hafinn. Að sjálfsögðu tökum við einnig þátt í mjólkurbikar og lengjubikar og er síðarnefnda keppnin næst á dagskrá, fyrsti leikur 24. febrúar gegn höfnum í Reykjanesbæ. Fyrsta æfing liðsins var haldin í gær á Selfossi og var hún fjölmenn, skemmtileg og lofar góðu um framhaldið. Leit að þjálfara stendur enn yfir en vonast er til að hægt verði að kynna nýjan þjálfara á næstu vikum. 

Við munum kynna ýmislegt á næstu dögum og halda stuðningsmönnum uppfærðum um allt það helsta kringum fótboltann gegnum alla helstu miðla og ekki síst þessa fínu vefsíðu sem við erum komin með. 

 

Endilega fylgist með og eigið gleðilegt ár. 

- stjórn 

Back to blog